PISTILL UM BORÐPLÖTUR:
Úr mörgu er að velja þegar kemur að vali á borðplötum í eldhús og á baðherbergi. Neðangreindur listi gefur smá yfirsýn yfir það sem fæst á Íslandi í dag. Verðbil með mælingu og uppsetningu frá 1 (ódýrast) og upp í 5 (kostnaðarsamast).
Marmari: Náttúrusteinn. Gljúpur og mjúkur. Til í mörgum litabrigðum, vinsælastur hvítur með gráum og jafnvel ljósbrúnum æðum. Viðkvæmur fyrir hita, sýru, blettum. Hægt að halda honum tiltölulega blettalausum með því að bera í hann og þurka fljótlega ef sullast niður. Fæst póleraður eða mattaður. Verðbil 4 til 5.


Granít: Náttúrusteinn. Frekar harður steinn. Til í mörgum litabrigðum en vinsælastur í svörtum eða dökkum tón. Ekki ráðlagt að setja hita á granít þar sem það getur verið veikleiki í steininum sem sést ekki berum augum og þar getur hann sprungið. Tekur ekki í sig bletti eins auðveldlega og marmari og rispast ekki eins auðveldlega. Fæst póleraður, mattaður og með “leður” áferð þar sem yfirborðið er aðeins gróft. Verðbil 4 til 5.


Quartzite: Náttúrusteinn. Kemur annarsvegar mjúkur (mýkt milli marmara og graníts) og hinsvegar harður og þá er harkan töluvert meiri en í granítinu. Mörg litabrigði. Verðbil 4 til 5.


Quarts: Tilbúinn steinn. Niðurkurlaður náttúrusteinn 95% og bindiefni 5%. Quarts er alveg lokað efni og þolir því vel að það hellist á hann litsterkt efni eða sýra. Ekki er ráðlagt að setja heitt á quarts þar sem að það getur litað bindiefnið (geta komið gulir blettir) en dekkri litir þola það betur. Oftast póleruð áferð. Verðbil 3 til 5.


Risa flísar: Nýlegt borðplötuefni (á Íslandi). Stórar flísar, 6 – 12 mm þykkar. Þurfa að liggja á undirlagi (td. krossviðsplötu). Eins og staðan er í dag er einungis hægt að panta heilar plötur (sem eru ca 120 x 240 cm – breytilegt eftir framleiðanda) og það þarf að skera þær á Íslandi. Til þess að skera þær þarf að teikna þær upp í tölvutæku formi og þær eru ýmist laser skornar eða skornar með vatnsþrýstingi (við í IDEE getum aðstoðað með teikningu). Venjulegir flísarar taka ekki að sér að skera þessar flísar til fyrir borðplötunotkun. Þar sem þær eru mjög þunnar er hætta á yfirspennu í plötunni og þær geta sprungið svo þá áhættu þarf að meta áður en ráðist er í að kaupa flísaborðplötu. Kostur þeirra er hinsvegar að þær eru mjög harðar og þéttar og engir blettir festast í þeim, eins eru þær mjög fallegar og halda sér vel. Mikið litaúrval, marmara- eða náttúrusteinalíki, steypulíki ofl. Fæst í póleraðri og mattri áferð. Verðbil er um 3.


Keramik: Svipað og flísar, nema kemur tilbúið frá framleiðanda erlendis fyrir uppsetningu. Keramikið er mjög hart efni og þolir allt að 400°C hita svo þær henta vel fyrir þá sem vilja geta sett heitt beint á borðplötuna. Ýmsir litamöguleikar (útlit minnir á matt quartz). Fæst í mattri áferð. Verðbil 4 til 5.


Steypa: Vinsælt borðplötuefni í síðari tíð (oft DIY). Mjög gljúpt efni og því líklegt að það taki í sig bletti við daglega notkun. Steypan er viðkvæm og getur brotnað upp úr henni eða komið sprungur og því þarf að kynna sér vel meðhöndlun steypunnar. Nauðsinlegt er að loka steypunni með góðu yfirborðsefni til að lengja líftíma hennar og viðhalda útlitinu. Hún hentar vel í verkefni þar sem útlit á að vera hrátt og ekki of fullkomið. Verðbil 2 til 3.


Corian: Tilbúið efni. Blanda af fínum steinmulning og akrýl. Kostir eru að þetta er algerlega þétt efni og þar af leiðandi 100% bakteríufrítt. Það er einnig hægt að pússa það upp og þá verður borðplatan alveg eins og ný. Fallegast við Corian er að það er algerlega „seamless“ efni, þ.e. samskeyti sjást ekki (nema ef tekin er plata með miklu munstri) og þú finnur alls ekki fyrir þeim við snertingu. Einnig er fallegt að hægt er að fá bæði eldhús- og baðvaska, oft í sama lit, algerlega seamless. Þægilegt að þrífa og umgangast, sér lítið á því. Corian er alltaf 12 mm þykkt efni, og stundum 24 mm (tvöfölld borðplötuþykkt) ef þarf. Efnið er hægt að hitamóta í mismunandi form og hentar því vel í frumleg verkefni. Efnið er eðlishlýrra en steinn sem mörgum finnst vera kostur ef setið er við borðið. Verðbil 4 til 5.


Akrýlsteinn: Svipað og Corian nema þar er 3 mm þykk akrýlsteinaþynna þrýstilímd ofan í spónarplötu (margir mismunandi framleiðendur, ekki Corian). Hægt að setja seamless vaska og samskeyti sjást lítið sem ekkert. Veikara efni en Corian þar sem spónarplatan undir þynnunni er mýkri en akrýlsteinninn þ.a.l. meiri líkur á sprungu í efninu við högg (heldur en gegnheilt Corian). Það er hægt að laga akrýlsteininn með viðgerð (eins og Corian). Verðbil 4 til 5.
Stál: Borðplötur úr stáli eru víðast hvar notaðar í iðnaðareldhúsum en hafa ekki náð miklu brautargengi fyrir heimiliseldhús. Stálið hefur samt marga kosti og getur komið mjög vel út í svolítið industrial eldhúsum sem dæmi. Einstaklega þægilegt í þrifum. Til að kaupa sér stálborðplötu er best að láta teikna hana fyrir sig (við í IDEE tökum það að okkur) og láta svo stálsmiðju smíða eftir tækniteikningu. Verðbil 3 til 4.


Harðplast: Eitt ódýrasta borðplötuefnið. Samskeyti sjást oftast vel. Harðplast hitalímt á spónarplötu. Harðplastið er vatnshelt yfirborð en spónarplatan undir er það oftast ekki (ekki algilt, spyrjið söluaðila), svo ef raki kemst undir er hætta á vatnsskemmdum og bólgum í efninu. Harðplastplötur eru auðveldar í uppsetningu, ódýrar og endingargott borðplötuefni sem er auðvelt í þrifum. Mikið úrval útlits. Harðplastplötur eru ekki hitaþolnar. Verðbil 1.


Fenix: Harðplast með súpermattri áferð. Mjög falleg en frekar erfitt að viðhalda. Fitublettir sjást frekar vel á yfirborðinu og þarf sérstakt þrifefni til að halda plötunni óaðfinnanlegri. Verðbil 2.


Gegnheilt laminate harðplast: Plastefni í gegn, 100% vatnshelt. 10 mm þykk plata (oftast svört með mismunandi yfirborði, stundum Fenix). Hart efni, sér lítið á því og endist lengi. Verðbil 2.


Límtré: Náttúrulegur viður límdur saman. Yfirborð lakkað eða olíuborið. Til að sinna viðhaldi þarf að pússa plötuna upp reglulega (sjaldnar ef lakkað, en sér minna á því ef olíuborið). Gefur stundum ákveðna mýkt í rými sem er litlaust. Verðbil 1.


Vaskar: Hægt að hafa undirlímdan vask í eftirfarandi plötum: Marmari, granít, quartzide, quartz, keramik, corian, akrýlstein og gegnheilt laminate. Athugið að borðplötubrúnin er samt viðkvæm og ef það kemur högg á hana (td. af pönnu sem skellur í brúnina) getur brotnað upp úr henni. Quartzinn er þá líklegast harðastur og ólíklegastur til að brotna.
Söluaðilar á Íslandi (ekki tæmandi listi):
Marmari, granít og quartz:
Fígaró
Rein
S. Helgason
Granítsteinar
Granítsmiðjan
Steinprýði
Quartzite:
Fígaró
Granítsteinar
Risa flísar:
Parki
Birgisson
Vídd
Keramik:
Parki
Steypa:
Byko
Húsasmiðjan
Múrbúðin
BM Vallá
Corian:
Orgus
Akrýlsteinn:
Fanntófell
Fígaró
Parki
Harðplast:
Fanntófell
BYKO
Húsasmiðjan
Bauhaus
Parki
Fenix:
Fanntófell
BYKO
Parki
Gegnheilt laminate harðplast:
BYKO
Húsasmiðjan
IKEA
Fanntófell
Parki
Patti
Límtré:
BYKO
Húsasmiðjan
IKEA
Fanntófell
Patti
Við þökkum kærlega viðtökurnar og upplýsingarnar sem við fengum hjá Fígaró, Rein, Orgus, Fanntófell og Parka.
Myndir sem fylgja eru fengnar á Pinterest.