Viðarparket

Viðarparket er mjög vinsælt gólfefni víða um heim. Hefur það staðið af sér allskonar tískustrauma, enda hefur viður verið notaður um aldir á gólf um heim allan. Hver planki hefur einstakt útlit og hentar því vel á bæði stærri sem smærri rými til að brjóta upp mónótónískt yfirbragð sem og gefa rýmum hlýju og mýkt.

Kostir og gallar:

Kostir viðarparkets er að það er mjúkt að ganga á því, það er eðlishlýtt viðkomu og það gefur rými sem því skartar ákveðna sál. Einnig er það umhverfisvænn kostur því hægt er að slípa það niður 2-4 sinnum (eftir þykkt spónsins) til að endurnýja útlit eða fríska upp á það gamla. Gegnheilt parket er að sjálfsögðu hægt að slípa niður mun oftar. Reikna má með að hver slípun sé ca 1 mm.

Gallar viðarparkets er að það er auðvelt að dælda það og rispa og það kemur til með að breytast með tímanum, lýsast eða dökkna. Það má því segja að því fylgi ákveðin sál. Viðarparket er einnig viðkvæmt fyrir raka og þolir það því illa að vera á álagssvæðum heimila og fyrirtækja eins og við innganga, á salernum og eldhúsaðstöðum.

Lagning:

Viðarparket er viðkvæmt fyrir hita- og rakabreytingum og því þarf að leggja það með hreyfingu þess í huga, gefa því að lágmarki 1 cm þenslurauf við veggi. Einnig þarf að huga að því að brjóta það upp ef það á að leggja það á löng og/eða stór rými vegna mögulegrar þenslu parketsins. Ekki er mælt með því að leggja viðarparket undir innréttingar eða aðra mjög þunga hluti sem hefta hreyfingu viðarins. Spónlagt viðarparket er þó betra en gegnheilt viðarparket að því leiti að með lögum þess er komið að miklu leiti í veg fyrir þenslu og samdrátt í plönkunum. Margir velta fyrir sér hvernig best er að leggja viðarparket, en almenna reglan er að plankar ligga beint út frá stórum gluggum, þar sem ef plankar eru lagðir þvert á stóra glugga þar sem sól skín mikið inn þá getur það aukið þennslu og samdrátt í viðnum meira en ella. Það þarf þó að skoða þetta með hvert rými í huga og stundum verður ekki hjá því komist að leggja parket þvert á stærstu gluggana.

Best er að leggja hljóðeinangrandi undirlagsdúk undir viðarparket fyrir lögn þess, hvort sem það er límt niður eða lagt fljótandi. Það kemur í veg fyrir (eða minkar) hljóðbærni á milli hæða, en hefur einnig góð áhrif á hljóðvist í rýminu sem það er lagt og kemur að einhverju leiti í veg fyrir bergmál og óma. Góður dúkur einangrar um 24 db en til eru margar gerðir af dúkum og þarf að skoða vel hvaða dúkur hentar best fyrir hvert verkefni fyrir sig.

Athuga skal rakastig í plötu fyrir lagningu parkets en almenna reglan er sú að rakastig skuli vera undir 55% ef líma á parketið beint niður á stein. Flestir söluaðilar parkets lána rakamæla og mælum við hiklaust við að nýta sér þá þjónustu þar sem það getur sparað mikinn kostnað, tíma og fyrirhöfn ef parket er lagt á of raka plötu. Ef rakastig plötu reynist of hátt eru nokkrir hlutir í stöðinni. Ef ekki er hægt að bíða eftir að platan þorni (eða botnplötur húss) er hægt að loka yfirborði steinsins með ýmsum efnum s.s. polyurethan lakk (notkunarleiðbeiningar skv. framleiðanda). Ef líma á parketið niður skal passa að límið geti þanist út og hafi mikið teygjuþol. Eins þarf að velja réttan dúk sem þolir raka og er myglu og saggavarinn. Betra er að velja parket með læsingu eða nót og tappa frekar en ólæsta planka uppá þenslu dúksins.

Hægt er að leggja viðarparket ofan á gólfhita, en gæta verður þess að fylgja leiðbeiningum framleiðanda með hámarkshita á gólfi. Einnig þarf að varast að hækka gólfhita snögglega eftir að parket er lagt, heldur skal það hækkað smá saman. Ef gólfið er hitað of mikið eða of hratt er möguleiki að plankar skreppi saman og getur það myndað gliðnun milli borða. Annað sem skal athuga er að ef parket er geymt í upphituðu rými fyrir lögn þess má leggja það fljótlega annars skal hafa það í því rými sem það er lagt í (í réttu hitastigi) allt upp í 6 daga þannig að viðurinn aðlagist hita rýmisins.

Uppbygging parketsins:

Flest viðarparket sem nú eru seld eru með læsingu milli borða og því hægt að leggja það fljótandi á skömmum tíma. Þau parket sem eru með læsingum eru nánast undantekningarlaust spónlögð viðarparket sem þýðir að 3-5 mm viðarspónn er límdur á millilag eða undirlag sem liggur þvert á spóninn til að minnka þenslu og hreyfingu í parketinu. Spónlögð viðarparket eru oft um 13-16 mm þykk en gegnheilir plankar eru oftast mun þykkari, 18-21 mm á þykkt. Kostir þynnra parkets er að oft er hægt að koma þeim undir hurðakarma án mikillar fyrirhafnar, einnig þægilegra að para það við annarsvegar gólfefni þar sem það mætist eins og t.d. flísar þar sem minni munur er á þykkt þess.

Mjúkviður / Harðviður:

Viðarparket er annarsvegar úr mjúkvið eða harðvið. Í mjúkviðsflokknum eru meðal annars fura, sedrus, bambus og greni og er það nánast undantekningarlaust í gegnheilum plönkum (nema bambusinn sem kemur í minni einingum). Mjúkviður er mjúkur vegna þess að tréin vaxa svo hratt og því myndast örlítil holrúm milli trefjanna. Eiginleikar mjúkviðsins er að hann er fallegur þegar hann eldist með rýminu, fær á sig dældir og rispur en það verður hluti af karakter þess. Hann breytir einnig um lit þegar hann eldist, en það er hægt að draga töluvert úr því með því að bera lút yfir flötinn. Þau efnaskipti sem eiga sér stað með lútburðinum seinka og í sumum tilfellum kemur það einnig í veg fyrir litabreytingu viðarins. Mjúkviður er oftast ómeðhöndlaður og því er gaman að meðhöndla hann á einhvern hátt svo sem með lakki, olíu, bæs, lút ofl til að ná fram ákveðnu útliti.

Flest parket sem seld eru á Íslandi eru spónlögð harðviðarparket, nánar til tekið eik. Í harðviðarflokkum eru þó einnig askur, hnota, kirsuberjaviður, tekk o.fl. Eikin skiptist svo í rauðeik (Norður USA) og hvíteik (Suður USA). Þetta eru algengustu tegundir sem seldar eru í harðparketum á Íslandi þó að eikin trónir á efst á topnum í söluhæstu harðviðarparketunum og það með miklum yfirburðum. Harðviðurinn vex hægt og er því þéttari í sér en það er því ekki eins mikil endurnýjun á þeim skógum eins og í mjúkviðnum. Harðviðarparket er langoftast selt tilbúið til notkunar, þ.e. lakkað eða olíuborið, svo að eftir lagningu má strax nota gólfið (nema það sé niðurlímt og límið sé að þorna). Athuga skal að ef harðviður er niðurlímdur er mikilvægt að hann fái lengri tíma til að taka sig en mjúkviðarparket áður en yfirborðið er meðhöndlað, en þar getur þurktími límsins verið allt að 3 vikur.

Útlit:

Viðarparket má fá í mörgum útfærslum svo sem háglans lakkað, mattlakkað, olíuborið eða ómeðhöndlað. Hvíttað, dekkt eða ólitað. Fínpússað og ófasað (oft í þriggjastafa parketum), léttburstað eða grófburstað. Með microfösun eða fasað á langveginn eða 4 kannta. Með miklum, litlum eða engum kvistum og viðgerðum. Í breiðum eða mjóum plönkum, smellt eða límt saman. Eins og sjá má er mjög mikið úrval í viðarparketum.

Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum framleiðanda með lagningu hvers parkets fyrir sig því ef eitthvað kemur uppá gætir þú misst ábyrgðina ef ekki er farið rétt að.

Endurvinnsla:

Ef þú getur ekki komið viðarparketinu í not á öðrum stað, gefið það eða selt þá skal endurvinna það á endurvinnslu stöð í gám sem tekur málað timbur. Þar er það kurlað niður og baggað og að endingu sett í landfyllingu.

IDEE mælir eindregið með að velja viðarparket frá framleiðanda sem er með umhverfisvæna framleiðslu og lætur umhverfismál sig varða.


Fyrir þá sem vilja fræðast enn frekar um viðarparket bendum við á síðurnar:

https://www.thespruce.com/hardwood-flooring-pros-and-cons-1977013

https://www.meister.com/en/advice/expertise/parquet-laminate.html

https://thehardwoodflooringco.com/solid-or-engineered/

https://www.hoskinghardwood.com/Department/Hardwood-Floors/All-About-Floating-Wood-Floors.aspx?dId=7&pageId=4

https://pm.is/frodleiksmolar/leggja-parket

Next
Next

Borðplötur